150 milljónum varið aukalega til geðheilbrigðismála ungmenna

.
. mbl.is

Stórefla á geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra. Á blaðamannafundi nú áðan greindi hann frá því að 150 milljónum verði varið í að stórauka þjónustu við börn og unglinga með hegðunarraskanir á næstu átján mánuðum.

Segir Guðlaugur Þór að þegar áætlunin verður að fullu komin til framkvæmda mun það ástand sem nú ríkir í þessum málaflokki heyra sögunni til. Ríkisstjórnin samþykkti þessa tillögu ráðherrans á þriðjudag.

Gert er ráð fyrir að leið barna og ungmenna að þjónustu sérfræðinga á sviði barna- og unglingageðheilbrigðisþjónustu verði greiðari. Starfsmönnum sem sjá um þjónustuna fjölgi og samvinna þeirra sem veita þjónustuna verði aukin. Jafnframt á að auka samstarf þeirra sem veita þjónustuna, að ráðgjafahlutverk og þjónusta Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) og Miðstöðvar heilsuverndar barna verði efld og þessum aðilum gert kleift að bregðast við þeirri brýnu þörf sem skapast hefur fyrir þjónustuna.

Þá er gert ráð fyrir að í upphafi næsta árs liggi fyrir úttekt á starfsemi og stjórnun BUGL en á grundvelli hennar verða teknar ákvarðanir um framtíðarskipulag og rekstrarform deildarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert