Eiga laun leikskólakennara að vera hærri?

Fjöldi reykvískra foreldra eru í vandræðum vegna skorts á starfsfólki í leikskólum. Formaður leikskólaráðs segir laun vera stærstu hindrunina í Reykjavík þar sem húsnæðisverð er hátt og samgöngur dýrar. Þá segir hann nauðsynlegt að leysa ramma kjarasamninga svo hægt verði að umbuna starfsmönnum eftir hæfni og álagi.

Unnið að fjölgun kennaranema

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs Reykjavíkurborgar, segir að til langs tíma sé einnig nauðsynlegt að fjölga fagmenntuðu starfsfólki. Um 45% starfsfólks leikskólanna er fagmenntað og er starfsmannavelta þeirra í samræmi við það sem gerist í öðrum starfsgreinum.

Í heildina er starfsmannavelta leikskóla hins vegar 30 - 40%, sem þykir hátt. Starfsmannavelta er því mest meðal ófaglærðra. Unnið er að fjölgun kennaranema í samstarfi við menntamálaráðuneytið, að sögn Þorbjargar Helgu.

Nýjar aðferðir til að laða að starfsfólk

Fjölgun kennaranema leysir þó ekki þá bráðu nauðsyn sem nú hefur myndast. Næstu vikur mun leikskólaráð reyna nýjar aðferðir til þess að fá fólk til starfa. Í millitíðinni verður komist á móts við starfsfólk sem vinnur undir miklu álagi með svokölluðum TV-einingum.

Einingarnar veita leikskólastjórum borgarinnar færi á að umbuna starfsmönnum sínum sem vinna undir miklu álagi. Þær nýtast því ekki nýju starfsfólki.

Miklar kröfur til starfsfólks

Miklar kröfur eru gerðar við ráðningu nýs starfsmanns og telur Arndís Bjarnadóttir, leikskólastjóri, það vera hluti af vandamálinu. Þá segir hún einnig vera skort á fagmenntuðum leikskólakennurum. Launin telur hún vera hindrun, en segir margt vera meira gefandi en peninga og hvetur fólk til þess að sækja um starf á leikskólum Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert