Ekki er vitað til þess að Íslendinga sé saknað á jarðskjálftasvæðinu í Perú. Átta danskra ríkisborgara er saknað og leitast nú danska utanríkisráðuneytið við að fá upplýsingar um þetta fólk í gegnum finnska sendiráðið í Lima. Ræðismaður Íslands í Perú, Dr Augusto Arriola sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann vissi ekki til þess að íslenskir ríkisborgarar hefðu verið á því svæði sem varð verst úti í jarðskjálftanum.
„Hér í Lima erum við vön jarðskjálftum eins og á Íslandi en þessi jarðskjálfti var óvenjulegur að því leyti að hann varaði svo lengi, hann stóð í heilar tvær mínútur og þá fór að fara um fólk,” sagði Dr Arriola.
Ræðismaðurinn sagði að algengast væri að íslenskir ferðamenn kæmu til Lima og héldi síðan til Quito og Arequipa sem eru borgir inn til landsins þar sem eflaust hafi fólk fundið fyrir skjálftanum en að mestur skaðinn hafi verið í borgum og bæjum við ströndina fyrir sunnan höfuðborgina Lima.
Dr Arriola sagði að hann hefði sjálfur verið á sjúkrahúsi þegar skjálftinn reið yfir og að hann hafi verið mjög feginn að hafa náð símasambandi við fjölskyldumeðlimi sína og getað staðfest að allir voru heilir á húfi.
Hann sagði að hús hefðu sprungið og að einhverjar minni háttar skemmdir hefðu orðið í Lima en ekkert mannfall eins og í borgunum Chilca, Pisco og Ica.