Fimmtán ára síbrotapiltur dæmdur í 2 ½ árs fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Fimmtán ára gamall piltur var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 2 ½ árs fangelsi. Frá refsingunni dregst frá gæsluvarðhaldsvist sem pilturinn hefur sætt frá 27. apríl sl., 111 daga. Var pilturinn ákærður fyrir að hafa slegið leigubílstjóra tvívegis í höfuðið með klaufhamri og reynt að neyða af honum fjármuni. Höfðu drengurinn og félagi hans verið farþegar í mí bíl leigubílstjórans. Eins var hann ákærður fyrir þjófnaði, tilraun til innbrots, brot á fíkniefnalögum og brot á umferðarlögum sem hann játaði á sig.

Pilturinn hefur þegar hlotið þrjá refsidóma, tvo skilorðsdóma í maí og júní á þessu ári og ennfremur 20 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm í síðasta mánuði. Segir í dómsorði að refsingu hans ber að tiltaka sem hegningarauka við þessa dóma og þykir refsingin, með vísan til þess hve brot ákærða er stórfellt, en einnig til þess hversu ungur hann er, vera hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár.

Höfuðkúpubrotnaði bílstjórinn og var áverki hans talinn lífshættulegur. Hann varð fyrir varanlegum heilaskemmdum og finnur reglulega fyrir minnisleysi, höfuðverk og svima. Báðir piltarnir voru undir áhrifum vímuefna þegar pilturinnframdi líkamsárásina. Þótti sannað að hann hefði ráðist á bílstjórann í því skyni að ræna hann. Hann bar fyrir dómi að hann hefði ekki ætlað að ræna bílstjórann en það var ekki talið trúverðugt.

Samningur er í gildi milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu um að síðarnefnda stofnunin sjái um vistun þeirra barna sem hljóta refsidóma á meðferðarheimili. Slík mál eru sárafá eða færri en eitt á ári að meðaltali. Vitað er um eitt tilfelli þar sem Barnaverndarstofa varð að vísa barni til afplánunar hjá Fangelsismálastofnun. Afplánun þess einstaklings fór þá ekki fram á Litla-Hrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert