Fjárlaganefnd fundar um Grímseyjarferju

mbl.is/Sverrir
Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

Fjárlaganefnd Alþingis boðaði fulltrúa Ríkisendurskoðunar á sinn fund í gær til að ræða um málefni nýrrar Grímseyjarferju, en stofnunin gagnrýndi margt er varðar undirbúning, kaup og endurbætur á skipinu í skýrslu sem birtist í fyrradag. Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, sat fundinn í fjarveru Bjarna Harðarsonar, nefndarmanns.

Að sögn Birkis var samþykkt á fundinum að skoða málið nánar og fara betur ofan í það með hlutaðeigandi aðilum.

Birkir segir málefni Grímseyjarferjunnar ekki hafa komið inn á borð fjárlaganefndar í formannstíð sinni að öðru leyti en því að í 6. grein fjárlaga 2006 hafi verið veitt heimild til þess "að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju". Hann segir ljóst að hér sé um hörmulegt mál að ræða, þar sem búið sé greiða út um 400 milljónir frá 2005, án nokkurra beinna heimilda af fjárlögum viðkomandi ára. Gengið hafi veriðframhjá Alþingi, sem hefur fjárveitingarvaldið, í ákvarðanatöku um ferjuna.

"Það versta í málinu er að gert var samkomulag milli fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar um bæði kaupin og endurbæturnar á nýrri ferju, án þess að nokkrar heimildir væru fyrir því í fjárlögum. Það er mjög alvarlegt þegar tvö ráðuneyti hlutast til um gjörning sem engar heimildir eru fyrir," segir Birkir um þá aðferð að fjármagna verkefnið með ónýttum fjárheimildum Vegagerðarinnar. Ef stjórnsýsluúttekt fer fram á Vegagerðinni kveður hann úttektina einnig eiga að ná til ráðuneytanna, sem nú reyni að varpa af sér ábyrgðinni. Birkir segir atburð sem þennan ekki mega endurtaka sig og kveður fjárlaganefnd munu halda áfram að fjalla um málið, meðal annars að beiðni stjórnarandstöðunnar.

Vill gefa ráðherra svigrúm

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði í gær til að stjórnsýsluúttekt yrði gerð á samgönguráðuneytinu sjálfu. "Ég vil hvorki gera tillögur um stjórnsýsluúttektir í landbúnaðarrráðuneytinu eftir Guðna né í samgönguráðuneytinu eftir mig," sagði Sturla um þau efni.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert