Hæstiréttur fellir úr gildi frávísun dómkröfu í héraði

Hæstiréttur Íslands hefur fellt úr gildi ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur sem vísaði frá dómi dómkröfu konu sem var flutt til í starfi á Landspítala háskólasjúkrahús eftir að samstarfsmaður hennar ásakaði hana um kynferðislega áreitni. Leggur Hæstiréttur það fyrir héraðsdómara að taka kröfu konunnar til efnismeðferðar.

Konan, sem er hjúkrunarfræðingur kærði ákvæði í héraðsdómi, þar sem kröfu hennar um ógildingu ákvörðunar LSH um að flytja hana til í starfi milli tveggja deilda sjúkrahússins var vísað frá dómi.

Var frávísunin á því reist að ekki yrði séð að hún hefði lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi sérstaka ógildingarkröfu í málinu. Hins vegar var fallist á kröfu konunnar um greiðslu miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar í héraðsdómi.

Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að konan reisti ógildingarkröfuna á því að ákvörðunin hefði verið íþyngjandi fyrir sig þar sem henni hafi verið gert að sækja vinnu á öðrum stað en fyrr. Fæli þessi krafa í sér meira en að vera aðeins forsenda fyrir kröfu hennar um miskabætur og hefði dómur um þetta sjálfstæða þýðingu fyrir sóknaraðila. Frávísunarþáttur héraðsdóms var því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka ógildingarkröfuna til efnislegrar meðferðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert