Mikill hiti var í bæjarbúum í Kópavogi sem mættu á íbúafund samtakanna Betri byggð á Kársnesi sem haldinn var í gærkvöldi. Fundurinn var haldinn vegna framtíðarskipulags Kársness en rammaskipulag gerir ráð fyrir stækkun Kópavogshafnar, atvinnuhúsnæði verði byggt upp á landfyllingu og íbúum fjölgi. Arna Harðardóttir, formaður samtakanna, hélt framsögu og gagnrýndi m.a. að engar tilraunir hefðu verið gerðar til að fá álit íbúa og kjósenda í vesturbæ Kópavogs. Bæjarbúum væri gert erfitt fyrir að gera athugasemdir og fyrirætlananna hefði ekki verið getið fyrir kosningar.
Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri sagði að það kæmi sér á óvart hversu hávær gagnrýnin væri. Fyrirætlanirnar hefðu legið fyrir á aðalskipulagi og sú mynd sem samtökin drægju upp af áhrifum þeirra væri verulega ýkt. Sagðist hann fagna athugasemdum og gagnrýni sem fram kæmi um skipulagið, þær yrðu hins vegar að vera sanngjarnar og á rökum reistar. Fyrir liggur deiliskipulagstillaga um stækkun hafnarinnar og sagði Gunnar að farið yrði yfir athugasemdir íbúa vegna hennar. Ef í ljós kæmi að íbúar væru á móti stækkuninni þá yrði hún ekki framkvæmd.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.