Sultuáhugamenn og aðrir sælkerar fjölmenna án efa á hina árlegu sultukeppni á sveitamarkaðinum í Mosskógum í Mosfellsdal sem fram fer á laugardag. Þátttakendur geta mætt með afurðir sínar milli 12 og 12:30 og verða þær síðan lagðar fyrir dómnefnd sem kveður upp úrskurð um kl. 15.
Keppnin hefur verið haldin í nokkur ár og hefur þátttaka alltaf verið góð að sögn Jóns Jóhannssonar á Mosskógum sem rekur markaðinn ásamt sveitungum sínum. Sulturnar koma enn fremur víða að. „Við höfum fengið sultur sendar utan af landi, þær hafa komið úr Reykjavík, Hafnarfirði, Grindavík og héðan og þaðan. Það er alltaf skemmtileg stemning sem skapast í kringum þetta," segir hann.
Að vanda verður dómnefndin skipuð valinkunnum sælkerum en ekki lá ljóst fyrir hverjir myndu taka að sér það vandasama verk þegar blaðamaður ræddi við Jón. "Við finnum alltaf einhverja," segir hann. „Það er reiknað með að það verði þrír dómarar í ár þannig að menn geti rifist um hvað þeim finnst."
Nánar í Blaðinu