Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er vegna manneklu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum borgarinnar hefur Samfylkingin átt viðræður við skólafólk, foreldra og forystu stéttarfélaga leikskólakennara, grunnskólakennara, Eflingar og Starfsmannafélags Reykjavíkur.
Á samráðsfundi með forystu stéttarfélaganna komu fram þungar áhyggjur af stöðunni en um leið sú staðreynd að nákvæmar upplýsingar um hana lægju ekki fyrir. Þetta kemur fram í bréfi sem Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn sendi á fjölmiðla í dag.
Í kjölfarið óskuðu fulltrúar Samfylkingarinnar eftir því að mannekla yrði sett á dagskrá leikskólaráðs, menntaráðs og ÍTR.
Á fundi leikskólaráðs i gær kom fram að engin yfirsýn hefur enn fengist yfir skort á starfsfólki né hversu mörg börn og fjölskyldur bíða eftir plássum á leikskólum og frístundaheimilum þótt vandinn hafi verið fyrirséður frá því í vor. Þó var samþykkt í leikskólaráði að álagsgreiðslur til leikskólakennara væru teknar upp á þeim leikskólum sem skilað hafa rekstrarafgangi.
Því óskaði Samfylkingin eftir upplýsingum og kallaði eftir svörum við eftirfarandi spurningum í borgarráði í dag, samkvæmt Degi B. Eggertssyni:
1. Að borgarráð fái ítarlegt yfirlit um stöðu þessara mála, m.a. hversu mörg börn og fjölskyldur bíði eftir því að komast inn á leikskóla og frísundaheimili skipt eftir hverfum, hversu gömul elstu börnin í þessum hópi eru og hvenær líklegt er að úr rætist.
2. Er mannekla vandamál á einhverjum þeirra leikskóla sem ekki eiga rekstrarafgang? Fær starfsfólk á þeim leikskólum álagsgreiðslur?
3. Eiga aðrir starfsmenn leikskóla en leikskólakennarar von á álagsgreiðslum?
4. Verður gripið til sambærilegra aðgerða til að bæta kjör kennara og starfsfólks grunnskóla og frístundaheimila?