Fyrsta pósthúsið í röð tíu nýrra pósthúsa, sem Íslandspóstur hyggst reisa víðs vegar um landið, var opnað á Húsavík í dag. Er þetta í fyrsta sinn í um tíu ár sem nýtt pósthús er byggt frá grunni hér á landi.
Næsti áfangi í uppbyggingu þjónustunets Íslandspósts mun verða opnun nýs pósthúss á Reyðarfirði í lok mánaðarins og nokkru síðar verður nýtt pósthús á Stykkishólmi tekið í notkun, en framkvæmdir við pósthúsið eru sagðar vel á veg komnar. Skóflustunga að nýju pósthúsi á Akranesi var tekin í sumar og í kjölfarið verða opnuð ný pósthús í Borgarnesi, á Sauðárkróki, Höfn í Hornafirði, Hvolsvelli, í Vestmannaeyjum og á Selfossi.
Þessir staðir, auk Reykjavíkur, Patreksfjarðar, Ísafjarðar, Blönduóss, Akureyrar, Egilstaða og Keflavíkur, hafa verið skilgreindir sem kjarnastaðir í starfsemi Íslandspósts. Auk pósthúsa og afgreiðslustaða rekur fyrirtækið landpósta sem starfa líkt og pósthús á hjólum í sveitum landsins. Tvær flokkunarmiðstöðvar eru fyrir póst, ein í Reykjavík og önnur á Akureyri.
Í tilefni af opnuninni á Húsavík býður Íslandspóstur til hátíðar laugardaginn 18. ágúst frá klukkan 13 til 15 í nýja pósthúsinu á Garðarsbraut 70. Þar verður boðið upp á grillaðar pylsur og skemmtiatriði auk þess sem gestum verður boðið að skoða nýja húsnæðið.