Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, segir að af hálfu ráðherra hafi aldrei verið gefin fyrirmæli "sem áttu að geta leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir um kostnað við [Grímseyjar]ferjuna." Þetta kemur m.a. fram í yfirlýsingu sem Sturla sendi frá sér nú síðdegis "vegna umræðu um Grímseyjarferju."
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
"Skýrsla Ríkisendurskoðunar um nýja Grímseyjarferju hefur orðið tilefni mikillar umræðu undanfarna daga. Vegna núverandi starfa minna tel ég mig ekki í aðstöðu til að tjá mig um efni þeirrar skýrslu. Mér finnst heldur ekki rétt að ég tjái mig um málið sem fyrrverandi samgönguráðherra. Samgönguráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að núverandi stjórnendur ráðuneytisins líti málið alvarlegum augum og muni í framhaldinu bregðast við með viðeigandi hætti. Við það hef ég engu að bæta.
Þar sem mjög er leitað eftir umsögn frá mér um þetta mál leyfi ég mér þó að benda á að Vegagerðin annast fyrir samgönguráðuneytið útboð og umsjón með framkvæmdum sem að jafnaði kosta á bilinu tíu til tuttugu milljarða króna ár hvert. Samgönguráðherra á hverjum tíma verður að sjálfsögðu að treysta stofnunum sínum og ráðgjöfum þeirra til þess að fara að verklagsreglum og sinna daglegum störfum sínum af ýtrustu fagmennsku. Verði misbrestur þar á er endanleg ábyrgð vissulega ráðherrans en dagleg afskipti hans eða yfirsýn vegna framvindu einstakra verkefna af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir eru auðvitað óhugsandi. Af hálfu ráðherra voru aldrei gefin fyrirmæli sem áttu að geta leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir um kostnað við ferjuna.
Við ákvörðun um nýja Grímseyjarferju voru einkum tveir valkostir til skoðunar. Annars vegar að kaupa notað skip og lagfæra það til samræmis við þarfagreiningu sem sérstakur starfshópur sem ég skipaði árið 2003 hafði framkvæmt. Hins vegar að ráðast í nýsmíði sem augljóst var að yrði mun dýrari kostur. Ódýrari leiðin var valin en því miður kom í ljós að kostnaðaráætlanir reyndust mjög óraunhæfar miðað við þær endurbætur sem nauðsynlegt var að ráðast í. Engu að síður bendir allt til að endanlegur kostnaður við kaup og lagfæringar Grímseyjarferjunnar verði undir því verði sem þurft hefði að greiða fyrir nýtt skip. Hagkvæmasti kosturinn var því valinn og þrátt fyrir að framvinda verksins hafi auðvitað valdið miklum vonbrigðum var aldrei um annað að ræða en að ljúka því með eins hagkvæmum hætti og frekast væri unnt.
Vegagerðin hefur í gegnum tíðina annast fjölmörg stór verkefni á borð við jarðgangagerð og smíði brúarmannvirkja til viðbótar við kostnaðarfreka vegagerð með óaðfinnanlegum hætti. Engu að síður er fullkomlega eðlilegt að þegar undantekning verður á, jafnvel þó verkefnið sé ekki umfangsmikið á mælikvarða ríkisframkvæmda, verði það tilefni til rækilegrar umfjöllunar og viðeigandi aðgerða. Augljóst er hins vegar að slíkt getur aldrei verið á borði fyrrverandi samgönguráðherra heldur einungis þeirra sem nú standa við stjórnvölinn í ráðuneytinu."