„Við viljum auðvelda fólki enn frekar að flokka heimilissorp,“ sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri þegar hann tók við fyrstu bláu tunnunni á vegum Sorphirðu Reykjavíkur en í hana fer pappír. Tunnan er sótt heim og losuð þrisvar í mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Reykjavíkurborg bætti í dag við þjónustu sína við söfnun á flokkuðum úrgangi til endurvinnslu. Boðið er uppá söfnun á pappírsúrgangi við heimili en hingað til hafa íbúar getað losað þennan úrgang á grenndar- og endurvinnslustöðvar, samkvæmt tilkynningu.
Vilhjálmur borgarstjóri Reykjavíkur segir í fréttatilkynningu, söfnun heimilissorps vera grunnþjónusta sem sveitarfélög bera ábyrgð á samkvæmt lögum. Einnig að sveitarstjórn skuli ákvarða með hvaða hætti söfnun heimilisúrgangs er háttað í sveitarfélaginu.
„Urðun sorps kostar bæði meira fé og land heldur en endurvinnsla og því viljum við gera íbúum borgarinnar kleyft að safna pappír til endurvinnslu í heimilistunnur,“ sagði borgarstjóri sem hafði pantað fyrstu bláu tunnuna.
Í hana má setja dagblöð, tímarit, markpóst og ýmiskonar prentpappír. Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir starfsmaður Sorphirðunnar trillaði fyrstu tunnunni að heimili borgarstjóra.