Næstkomandi laugardag, 18. ágúst verður haldið í Reykjavík landsþing Landssambands framsóknarkvenna. Ljóst er að Bryndís Bjarnason, núverandi formaður LFK, hyggst hætta formennsku og hefur Eygló Harðardóttir ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í LFK.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá henni.
„Undanfarin ár hef ég tekið mjög virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Ég var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir síðustu tvennar alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður. Ég hef verið mjög virk í starfi á vegum flokksins og er m.a. ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, fulltrúi í miðstjórn Framsóknarflokksins og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Að auki hef ég gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. verið aðalmaður í skólamálaráði, setið í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands."