Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt eistneskan ríkisborgara í 4 mánaða fangelsi fyrir að svíkja í 9 skipti út farmiða hjá Icelandair, samtals að andvirði rúmlega 800 þúsund krónur. Maðurinn, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 8. ágúst, var einnig dæmdur til að greiða Icelandair 1,3 milljónir króna í bætur.
Maðurinn, sem er búsettur í London, lét í 9 skipti skuldfæra heimildarlaust andvirði farmiða rafrænt á heimasíðu Icelandair á greiðslukortareikninga annars fólks. Maðurinn komst yfir nöfn fólksins og númer reikninga af greiðslukvittunum á bar sem hann vann á í London.
Maðurinn flaug í sjö skipti milli borga á Norðurlöndunum og London með viðkomu í Keflavík frá mars í ár til 6. ágúst þegar hann var handtekinn hér á landi.
Fram kemur í dómnun, að maðurinn hafi hlotið dóma í Eistlandi fyrir þjófnaðartilraunir og skjalafals svo og dóma í öðrum Evrópuríkjum fyrir áþekk brot og hann var sakfelldur fyrir hér á landi.