Ríflega tuttugu hælisleitendur bíða samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindaskrifstofu Íslands eftir því að skorið verði úr um það hvort þeir fái hæli hér á landi. Sandra Lyngdorf lögfræðingur sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að það gleymdist oft að hér bíður fólk iðulega í marga mánuði og jafnvel á annað ár við bagalegar aðstæður í þröngu húsnæði í Ytri Njarðvík þar sem fólk hefur ekkert við að vera.
„Þetta fólk hefur sumt þurft að sæta pyntingum í heimalandi sínu," sagði Sandra.
Hún bætti því við að þetta hælisleitendurnir fengju endrum og eins íslenskukennslu.
Sandra sagði að í langflestum tilfellum væri hælissækjendum snúið aftur og að einungis hefði einn maður fengið stöðu flóttamanns sem hefur komið á eigin vegum svo vitað sé þannig að útlitið væri fremur dapurt.
„Fólkið kemur frá hinum ýmsustu löndum," sagði Sandra. Í fyrra sóttu 39 manns um hæli á Íslandi og það sem af er þessu ári hafa 24 sótt um hæli hér. Flestir voru hælisleitendur frá Rúmeníu og Rússlandi en einnig kom fólk frá Íran og Afganistan hingað.
Að lokum sagði Sandra að það mætti telja á fingrum annarar handar þá sem hafa fengið dvalarleifi hér af mannúðarástæðum.