Óskynsamlegt er að staðsetja olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, að mati Páls Bergþórssonar veðurfræðings. Er það vegna þeirrar hættu sem olíuskipum getur stafað af hafís á siglingaleiðum úti fyrir Vestfjörðum.
Páll minntist þess ekki að hafa upp á síðkastið heyrt minnst á hafísinn í umræðunni um hugsanlega olíuhreinsunarstöð fyrir vestan, né heldur hvaða áhrif hafís kann að hafa á siglingar t.d. olíuflutningaskipa frá Rússlandi fyrir norðan Vestfirði. Hann segir hafíshættuna yfirvofandi mestan hluta ársins á þessu hafsvæði og telur að betur þurfi að huga að þessum þætti.
"Núna, 12. ágúst, er t.d. hafíshroði þarna norður undan, um það bil þegar komið er hálfa leið til Grænlands. Þó er þetta á hlýindaskeiði og á þeim tíma árs þegar ísinn er kominn hér um bil í lágmark," sagði Páll. Komi einhver vestanátt að ráði á þessu svæði, hvenær ársins sem er, segir Páll alltaf hættu á jökum eða meiri háttar ís á siglingaleiðum þarna. Sérstaklega þegar hafísinn er í hámarki, í apríl og maí.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.