„Verklagið er viðurkennt"

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra vísar þeirri gagnrýni Ríkisendurskoðunar á bug sem snýr að aðkomu fjármálaráðuneytisins að fjármögnun hinnar nýju Grímseyjarferju.

Að mati skýrsluhöfunda stenst sú aðferð að fjármagna endurbætur ferjunnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu. Þá hefur Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagt ráðuneytin hafa hlutast til um gjörning sem engar beinar heimildir séu fyrir í fjárlögum og þannig sniðgengið fjárveitingarvald Alþingis.

Ónýttar heimildir oft notaðar

Tilgreinir Árni að heimild er fyrir kaupum á nýrri ferju í sjöttu grein fjárlaga 2006. Hún hafi verið inni í upphaflega frumvarpinu, svo rétt tæp tvö ár séu liðin frá því að tillaga að þeirri heimild leit dagsins ljós. Heimildin sé enn til staðar í fjárlögum þessa árs, óbreytt. "Þetta er heimild fyrir hvoru tveggja, að selja ferjuna Sæfara og kaupa nýja ferju. Það er algengt að van- eða ónýttar heimildir séu nýttar til annarra framkvæmda sem heimildir eru fyrir í fjárlögum. Það var gert í þessu tilfelli. Slíkt verklag er viðurkennt og hefur verið það lengi," segir Árni og kveður Ríkisendurskoðun ekki geta í sömu vikunni bæði gagnrýnt að fjárheimildir séu ekki nýttar og hins vegar að þær séu nýttar. "Starfsmenn Ríkisendurskoðunar vissu það fyrir að framkvæmdum er flýtt og fjármunir færðir á milli liða þegar aðrar framkvæmdir tefjast og ekki er hægt að nýta fjármuni í þær."

Margt fór úrskeiðis í málinu

Árni neitar því að vinnubrögðum í fjármálaráðuneyti sé ábótavant. Allar heimildir séu fyrir hendi og Vegagerðin hafi aldrei farið út fyrir fjárheimildir sínar, heldur alltaf verið með afgang. Miðað við fyrrnefnda fjárlagaheimild og fyrirliggjandi samgönguáætlun sé ekki annað að sjá en Vegagerðin hafi heimild fyrir kostnaðinum. "Gagnvart fjármálaráðuneytinu er Vegagerðin ekki komin yfir á rautt. Svo má hins vegar deila um það hvort skynsamleg leið hafi verið farin til að bæta ferjusamgöngur til Grímseyjar," segir Árni. Margt hafi farið úrskeiðis í málinu og ekki sé hægt að varpa ábyrgðinni á einhvern einn. Á endanum beri hver ráðherra ábyrgð á sínu málefnasviði.

Hann segir ráðuneytin ekki reyna að varpa af sér ábyrgðinni í málinu, eins og Birkir J. Jónsson lýsti yfir í gær. Vísar hann í því samhengi til yfirlýsingar ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins. Ef leita eigi uppi alla ábyrgðaraðila í málinu, sem séu margir, þá sé Birkir án efa einn af þeim sjálfur, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, sem ber að fjalla um allar þær fjárheimildir sem hún afgreiðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka