Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra vísar þeirri gagnrýni Ríkisendurskoðunar á bug sem snýr að aðkomu fjármálaráðuneytisins að fjármögnun hinnar nýju Grímseyjarferju.
Að mati skýrsluhöfunda stenst sú aðferð að fjármagna endurbætur ferjunnar með ónýttum heimildum Vegagerðarinnar á engan hátt ákvæði fjárreiðulaga og getur ekki talist til góðrar stjórnsýslu. Þá hefur Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagt ráðuneytin hafa hlutast til um gjörning sem engar beinar heimildir séu fyrir í fjárlögum og þannig sniðgengið fjárveitingarvald Alþingis.
Hann segir ráðuneytin ekki reyna að varpa af sér ábyrgðinni í málinu, eins og Birkir J. Jónsson lýsti yfir í gær. Vísar hann í því samhengi til yfirlýsingar ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins. Ef leita eigi uppi alla ábyrgðaraðila í málinu, sem séu margir, þá sé Birkir án efa einn af þeim sjálfur, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, sem ber að fjalla um allar þær fjárheimildir sem hún afgreiðir.