Viðurkenningar veittar fyrir lóðafrágang og endurbætur á eldri húsum

Verkamannabústaðirnir.
Verkamannabústaðirnir.

Árlegar viðurkenningar Skipulagsráðs Reykjavíkurborgar fyrir fegurstu lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja, og endurbætur á eldri húsum voru veittar í Höfða nú síðdegis.

Viðurkenning fyrir endurbætur var m.a. veitt fyrir verkamannabústaðina við Hringbraut. Á undanförnum árum hafa farið fram viðamiklar endurbætur á bústöðunum, sem miðað hafa að því að húsin haldi einkennum sínum og færa til eldra horfs það sem breytt hefur verið í gegnum árin.

Einnig var veitt viðurkenning fyrir endurbætur á húsinu að Snorrabraut 77. „Garðveggur að Auðarstræti sem hafði verið fjarlægður hefur nú verið endurgerður og gengið frá aðkomu að húsinu að austan á einkar fallegan hátt. Steinsteyptir garðveggir eru einkenni í hverfum sem byggð voru um miðbik 20.aldar og gefa þeim sérstakan svip. Endurgerð garðveggjar við Auðarstræti stuðlar að varðveislu götumyndar og hefur mikið umhverfislegt gildi,“ segir í tilnefningu vinnuhóps.

Þá var viðurkenning veitt fyrir endurbætur á húsinu að Bergstaðastræti 19. „Endurbætur sem gerðar hafa verið á húsinu á undanförnum árum miða að því að færa það að upphaflegu útliti. Gluggum hefur verið breytt til eldra horfs og efri hæð þess klædd bárujárni.“

Viðurkenning var veitt fyrir eftirtaldar atvinnu- og stofnanalóðir:

„Ármúli 3 fær viðurkenningu fyrir fallegan frágang á lóð á áberandi stað. Það er alltof sjaldgæft að lagður sé metnaður í að prýða aðkomusvæði húsa með gróðri þar sem augljósar þarfir virðast fyrst og fremst vera að koma fyrir bílastæðum. Á lóðinni Ármúla 3 hefur tekist vel til og lóðin er götumyndinni til sóma.“

„Lyngháls 13 fær viðurkenningu fyrir snyrtilega og velfrágengna lóð í iðnaðarhverfi. Leitast hefur verið við að minnka áhrifin af stóru bílastæði sem annars eru nauðsynleg. Unnið er vel með aðkomu og dvalarsvæði á móti sól komið fyrir við húsvegg.“

„Grensásvegur 24 fær viðurkenningu fyrir blómsæla aðkomu. Það mætti vera miklu algengara að lífgað sé upp á umhverfi þjónustu-fyrirtækja með blómum. Við Grensásveg 24 hefur það verið gert a.m.k. undanfarin tvö sumur með myndarlegum hætti.“

Þá var veitt viðurkenning fyrir lóð fjölbýlishússins að Vallengi 1-15. „Snyrtilega lóð þar sem nærsvæði húss mynda hlýlega umgjörð um sameiginlegt svæði og aðkomu. Þetta er gott dæmi um fjölbýlishúsalóð þar sem sameiginleg svæði spila saman og nærsvæði eru á ábyrgð viðkomandi íbúðar. Vallengi 1-15 er góður fulltrúi lóða þar sem lagður er metnaður í miðrými og aðkomur og viðhald er til sóma.“

Formaður Skipulagsráðs, Hanna Birna Kristjánsdóttir, gerði grein fyrir niðurstöðum dómnefndar við athöfnina í Höfða, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri afthenti viðurkenningarnar.

Snorrabraut 77
Snorrabraut 77
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert