Tré ársins var valið á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands um helgina. Að þessu sinni varð 13 metra hátt og rúmlega hundrað ára gamalt furutré fyrir valinu.
Þór Þorfinnsson skógarvörður á Hallormsstað segir tréð geysilega fallegt. "Þetta er lindifura sem er í trjásafninu í mörkinni. Það var danskur skógfræðingur, Christian Flensborg, sem sáði henni. Hann vann að tilraunum í skógrækt og árið 1906 sáði hann lindifurufræi í mörkinni. Mikið af því misfórst, en samt komust upp 87 tré af þessari tegund sem eru nú hérna í safninu," sagði Þór.
Þetta var 72. aðalfundur Skógræktarfélagsins. Ný stjórn var kjörin á fundinum og tóku tveir nýir stjórnarmenn sæti, þau Aðalsteinn Siggeirsson og Jónína Stefánsdóttir. Magnús Gunnarsson var kjörinn formaður, en Magnús Jóhannesson fráfarandi formaður ákvað að gefa ekki kost á sér í stjórn í þetta sinn.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.