Fuglar himinsins, nýtt altarisverk í Ísafjarðarkirkju, var vígt við messu í gær og var fjölmenni í kirkjunni. Höfundur verksins er listamaðurinn Ólöf Nordal. Um 750 leirfuglar prýða altarisvegginn, sem er um 90 fermetrar, en þeir voru búnir til af bæjarbúum um páskana undir leiðsögn listamannsins.
Séra Magnús Erlingsson, sóknarprestur í Ísafjarðarkirkju, segir daginn hafa verið afskaplega ánægjulegan. „Það var full kirkja þó ekki væri setið í hliðarsalnum. Við dreifðum blöðum þar sem fuglarnir voru númeraðir og þeir sem gerðu fugl gátu fundið sinn“, segir Magnús.
Ólöf hafði að leiðarljósi að verkið ætti að hafa víða skírskotun, vera sprottið úr íslenskri menningarhefð, tengjast umhverfinu og hafa persónuleg tengsl við sóknarbörnin í söfnuðinum.