silja@mbl.is
Ungri konu frá Venesúela var á síðasta ári smyglað hingað til lands í fragtflugvél frá New York til Keflavíkur af þáverandi unnusta sínum sem er flugstjóri hjá íslensku flugfélagi. Nokkru síðar lauk sambandi þeirra þegar hann réðst á hana með barsmíðum. Konan hefur kært manninn fyrir líkamsárás og segist einnig íhuga að kæra hann fyrir smyglið á sér til landsins.
Hjá landamæraeftirliti lögreglunnar á Suðurnesjum fengust þær upplýsingar að þegar einstaklingur kemur sem farþegi með fragtflugvél sé það á ábyrgð flugstjóra að koma viðkomandi í landamæraeftirlitið, sé um erlendan ríkisborgara að ræða sem eigi uppruna sinn frá ríki utan Schengen.
"Ég þekki reglurnar og veit að íbúar frá Venesúela geta ferðast til Schengen-svæðisins án vegabréfsáritunar og mega dvelja með löglegum hætti í viðkomandi landi sem ferðamenn í þrjá mánuði. Þegar við komum til Keflavíkur lagði ég því áherslu á að ég vildi fara í gegnum vegabréfaskoðunina til þess að verða skráð með lögmætum hætti inn í landið. Hann tjáði mér að það væri óþarfi og ég treysti því að hann þekkti reglurnar hérlendis betur en ég," segir konan sem í framhaldinu fylgdi manni sínum í gegnum starfsmannaútgang.
Konan hefur sótt um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun og er mál hennar nú til skoðunar þar.
Eftir því sem næst verður komist hefur sambærilegt tilfelli ekki komið inn á borð hjá íslenskum yfirvöldum.
Sjá nánar í Morgublaðinu í dag.