Vel gengur að ráða kennara í Reykjavík

Menntasvið Reykjavíkurborgar segir, að vel hafi gengið að ráða kennara til starfa í grunnskóla Reykjavíkurborgar undanfarna 10 daga. Á þeim tíma hafi tekist að ráða rúmlega 30 kennara til starfa og sé búið að ráða í rúm 97% stöðugildi kennara í grunnskólunum. Er enginn kennaraskortur í 18 skólum af 39 í borginni. Átta skólar eru fullmannaðir.

Engu að síður vantar enn 80 starfsmenn í rösklega 72 stöðugildi í skólunum, þar af 38 kennara. Búið er að ráða í 93% stöðugilda fyrir annað starfsfólk, en mestur skortur er á skólaliðum og er ómannað í rúmlega þrjátíu stöður fyrir þá.

Á fundi menntaráðs í dag var eftirfarandi bókun samþykkt:

    Samkvæmt könnun Seðlabanka Íslands meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telur 51% stjórnenda þeirra að skortur sé á vinnuafli og tæplega helmingur þeirra sem þátt tóku í könnuninni mun leitast við að fjölga starfsmönnum á þessu ári. Þensla á vinnumarkaði er því í algleymingi og hafa augu manna meðal annars beinst að ráðningum í grunnskólum enda var í upphafi sumars nokkur óvissa um hvort takast myndi að ráða í allar stöður fyrir komandi skólaár. Það er því ánægjuefni að útlit hvað það varðar er mun bjartara en talið var og ljóst orðið að skólahald mun hefjast með eðlilegum hætti. Menntaráð þakkar skólastjórnendum og menntasviði fyrir að takast sameiginlega á við að vinna farsællega úr ráðningarmálum kennara og annars starfsfólks skólanna. Þeirri vinnu verður fram haldið og óskar menntaráð eftir að verða upplýst um gang mála.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert