Vilja að lágmarkslaun hækki um 30%

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar hefur samþykkt ályktun þar sem lögð er á hersla á að í næstu kjarasamningum verði samið um 30% hækkun lágmarkslauna og að skattleysismörk hækki.

Í ályktun stjórnarinnar segir, að verðbólga, hækkanir á vöru og þjónustuverði, hærra húsnæðisverð og stórauknar greiðslur af húsnæðislánum hafi hirt að öllu leyti þær kjarabætur, sem félög innan Starfsgreinasambands hafi náð á yfirstandandi samningstímabili. Umsamin lágmarkslaun dugi einstaklingi ekki til eðlilegrar framfærslu og þess vegna verði aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að taka höndum saman við gerð næsta kjarasamnings og bæta kjör þessa fólks.

Í sérstakri ályktun um skattleysismörk segir að skattar séu innheimtir af lágmarkslaunum. Skorar stjórn Hlífar á þingmenn, að sjá til þess að þessari óeðlilegu og fjandsamlegu skattheimtu verði hætt sem fyrst. Það verði best gert með því að hækka skattleysismörkin verulega og láta þau síðan fylgja launaþróun í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert