fridrik@mbl.is
Búast má við því að um 500–600 nýbakaðir ökumenn þurfi að þreyta sérstakt námskeið vegna akstursbanns og sviptingar bráðabirgðaskírteinis á hverju ári í kjölfar breytinga sem gerðar voru á umferðarlögum í vor. Handhafar bráðabirgðaökuskírteinis, sem ýmist eru settir í akstursbann eða sviptir réttindum, þurfa að ljúka námskeiðinu og taka bæði skriflegt og verklegt ökupróf á nýjan leik. Að sögn reyndra ökukennara mun heildarkostnaður þessara ökumanna, sem langflestir eru á aldursbilinu 17–20 ára, ekki nema lægri fjárhæð en 150.000 krónum.
Ekki mega fleiri en 12 ökumenn sækja hvert námskeið sem samanstendur af tólf kennslustundum og tveimur verklegum tímum. Sérfrótt fagfólk á borð við sálfræðinga annast hluta kennslunnar.
Auk þessarar breytingar á umferðarlögum var ákvæði um akstursbann bætt við lögin í vor. Samkvæmt því skal lögreglustjóri leggja akstursbann á handhafa bráðabirgðaskírteinis sem fengið hefur 4 punkta vegna umferðarlagabrota. Ökuréttindin eru ekki veitt aftur fyrr en byrjandinn hefur sótt fyrrnefnt námskeið og staðist ökupróf.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.