Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, um Grímseyjarferju. Segir Ríkisendurskoðun, að gamla Grímseyjarferjan hafi ekki enn verið seld og þegar af þeirri ástæðu verði að telja afar vafasamt að stofna til hundraða milljóna króna útgjalda vegna kaupa á nýrri ferju á grundvelli sölu- og ráðstöfunarheimildar vegna gömlu ferjunnar í fjárlögum.
Yfirlýsing Ríkisendurskoðunar eftirfarandi:
Haft er eftir fjármálaráðherra að þetta sé heimild fyrir hvoru tveggja, að selja ferjuna Sæfara og kaupa nýja ferju. Það sé algengt að van- eða ónýttar heimildir séu nýttar til annarra framkvæmda sem heimildir eru fyrir í fjárlögum. Það hafi verið gert í þessu tilfelli og slíkt verklag sé viðurkennt og hafi verið það lengi. Jafnframt segir fjármálaráðherra að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafi vitað það fyrir „að framkvæmdum er flýtt og fjármunir færðir á milli liða þegar aðrar framkvæmdir tefjast og ekki er hægt að nýta fjármuni í þær“, eins og orðrétt er haft eftir honum.
Þá er haft eftir fjármálaráðherra að allar heimildir séu fyrir hendi og Vegagerðin hafi aldrei farið út fyrir fjárheimildir sínar heldur alltaf verið með afgang. Miðað við fyrrnefnda fjárlagaheimild og fyrirliggjandi samgönguáætlun sé að hans mati ekki annað að sjá en Vegagerðin hafi heimild fyrir kostnaðinum. Þessi efnislega afstaða fjármálaráðherra til málsins kom og fram í öðrum fjölmiðlum.
Af þessu tilefni þykir Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að taka fram að heimild sú sem fjármálaráðherra vitnar til er að finna í lið 7.9 í í 6. gr. fjárlaga áranna 2006 og 2007. Samkvæmt henni er fjármálaráðherra heimilt „að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju“. Svo sem kunnugt er hefur m/s Sæfari ekki enn verið seldur. Áætlað söluverðmæti ferjunnar er talið geta verið á bilinu 30 til 40 milljónir kr. Þar sem m/s Sæfari er óseldur hefur tilvitnuð fjárlagaheimild ekki enn verið nýtt að mati Ríkisendurskoðunar. Þegar af þessari ástæðu verður að telja afar vafasamt að stofna til hundruða milljóna króna útgjalda á grundvelli þessarar sölu- og ráðstöfunarheimildar. Þá skal minnt á að samningur um kaup á hinni nýju ferju var gerður í nóvember 2005. Þá var ekki gert ráð fyrir þessum útgjöldum fyrr en í samgönguáætlun þeirri sem Alþingi samþykkti á nýliðnu vori og tekur til áranna 2007 til 2010. Í henni er ekki gert ráð fyrir útgjöldum vegna nýrrar Grímseyjarferju fyrr en á árinu 2008.
Í annan stað er þess að geta að samkvæmt 37. gr. fjárreiðulaga er heimilt að flytja fjárheimildir milli einstakra rekstrarverkefna hvers ríkisaðila í A-hluta, enda séu verkefnin tilgreind í fjárlögum. Ríkisendurskoðun hefur jafnan litið svo á að millifærsluheimild þessi takmarkaðist við rekstrarverkefni en ekki stofnkostnað. Stofnunin hefur í samræmi við þetta talið að óheimilt væri að millifæra fjárheimildir á milli framkvæmdaviðfangsefna (þ.e. stofnkostnaðar og viðhaldsviðfangsefna) og rekstrarviðfangsefna nema að Alþingi hafi veitt til þess sérstaka heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Viðmiðunarreglur fjármálaráðuneytisins í þessum efnum sýnast vera í samræmi við þennan skilning Ríkisendurskoðunar, sbr. t.d. árvissa umfjöllun um ráðstöfun á stöðu heimilda í árslok í athugasemdum við frumvarp til lokafjárlaga.
Vegna ummæla fjármálaráðherra um fjárheimildir Vegagerðarinnar þykir Ríkisendurskoðun ekki úr vegi að vísa til umfjöllunar um fjárreiður hennar í nýútkominni skýrslu stofnunarinnar um framkvæmd fjárlaga 2006. Í skýrslunni er bent á að rekstrarútgjöld Vegagerðarinnar hafi farið rúmlega 500 milljónir kr. fram úr fjárheimildum í árslok 2006 og þar af eiga að mati Ríkisendurskoðunar um 300 milljónir kr. rætur að rekja til útgjalda vegna kaupa og breytinga á hinni nýju Grímseyjarferju.