Fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirlýsingar, sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í dag um málefni Grímseyjarferju. Segir fjármálaráðuneytið m.a. að lagaheimild til að kaupa nýja ferju hafi klárlega legið fyrir í fjárlögum.
Þá segist ráðuneytið telja, að svo langt sem fjárreiðulögin nái hafi ákvörðun um að heimila Vegagerðinni að nýta tímabundið ónotaðar lögákveðnar heimildir til að fjármagna kaupin og endurbætur á ferjunni verið innan þess ramma sem fjárreiðulög setji. Mýmörg dæmi séu um sambærilega orðaðar heimildir, og var í fjárlögum fyrir endurnýjun á Grímseyjarferjunni. Annað sé ekki hægt ef halda eigi áfram uppi þeirri þjónustu, sem um ræði.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
Samgönguáætlunin sem er til fjögurra ára er ekki lög í hefðbundnum skilningi heldur þingsályktun og því hægt að líta á hana sem vilja Alþingis í samgöngumálum ríkisins. Þegar ákveðið var að fara í endurnýjun á Grímseyjarferjunni þá var byrjað á því að afla hefðbundinnar heimildar Alþingis í fjárlögum ársins. Í umræddri heimildagrein var farið fram á að heimilt yrði „að selja Grímseyjarferjuna M/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju.“ Í skýringum með 6. gr. í fjárlagafrumvarpi 2006 segir „að heimildin sé til komin vegna endurnýjunar á Grímseyjarferjunni Sæfara“.
Löng hefð er fyrir því að litið hafi verið svo á að ekki sé einungis verið að ráðstafa andvirði eldri eignarinnar til kaupanna, heldur er Alþingi jafnframt að veita nauðsynlega lagaheimild til kaupa á nýrri eign í staðinn og greiða nauðsynlegan kostnað sem leiðir af kaupunum. Sambærilega orðaðar heimildir eru mýmargar og hafa tíðkast um langt skeið vegna sölu á tilteknum fasteignum þegar ætlunin er að kaupa eða leigja aðrar eignir í staðinn. Í þessu sambandi má t.d. nefna heimild 3.21 í 6. gr. núgildandi fjárlaga þar sem fjármálaráðherra er veitt heimild til að „að selja eignarhlut ríkisins í Hraunbæ 102d-102e og verja andvirðinu til kaupa eða leigu á hentugu húsnæði fyrir Heilsugæslu Árbæjar.“ Ekki er nokkur vafi á því að sá skilningur hefur ríkt að heimildin nær til sölu á núverandi eign, kaup eða leigu á nýrri eign í stað eldri eignarinnar ásamt ráðstöfun á söluverði eldri eignarinnar. Þá er augljóst að rökrétt röð framkvæmda í slíkum verkefnum er fyrst að tryggja eðlilegt framhald þeirrar þjónustu sem verið er að veita áður en tekin er ákvörðun um breytingar, svo sem um sölu á fasteign sem notuð hefur verið til þjónustunnar.
Mörg dæmi eru um það í ríkisrekstrinum að stofnanir nýti ónýttar heimildir sínar til að fjármagna kostnað vegna annarra lögbundinna verkefna þegar fyrir liggur lagaheimild til að stofna til kostnaðararins. Telja verður að slík lagaheimild hafi klárlega legið fyrir í fjárlögum ársins, sbr. ofangreinda fjárlagaheimild í 6. gr. fjárlaga 2006. Einnig verður að hafa í huga að beinlínis hefur verið unnið eftir því að Vegagerðin hafi heimild til að nýta óráðstafað fé tiltekinna verkefna eða afli vinnulána til að fjármagna önnur verkefni sem ákveðið hefur verið að flýta eða stækka, sbr. samkomulag frá 1998 vegna heimildar til lántöku til flýtingar á framkvæmdum og gert var með vitund Ríkisendurskoðunar.
Þegar tekin var ákvörðun um kaup og endurnýjun Grímseyjarferjunnar lá fyrir nýsamþykkt vegaáætlun fyrir árin 2005-2008. Við meðferð málsins á stjórnsýslustigi þótti ekki nauðsynlegt að breyta vegaáætluninni til að fjármagna kaupin, með hliðsjón af framangreindri fjárlagaheimild og þar sem lög um fjárreiður ríkisins þóttu ekki standa í vegi fyrir því að hægt yrði að fjármagna verkefnið þar til ný vegaáætlun kæmi til endurskoðunar að stuttum tíma liðnum. Gert var ráð fyrir að fjármögnun yrði til bráðabirgða af ónýttum heimildum stofnunarinnar en verkefnið yrði síðan endanlega fjármagnað í nýrri Samgönguáætlun. Í þessu sambandi verður að horfa til þess að heildarútgjöld Vegagerðarinnar voru langt innan ramma fjárheimilda og ónýttar fjárheimildir þar með mun hærri en sem nemur kostnaðaráætlun vegna þessa tiltekna verkefnis.
Í 37. gr. fjárreiðulaga, nr. 88/1997, eru ákvæði sem hafa það að markmiði að auka sveigjanleika stofnana til ráðstöfunar fjármuna. Þannig er heimilað að flytja fjárheimildir milli einstakra rekstarverkefna enda séu þau skilgreind í fjárlögum. Þá er heimilt að flytja innstæður og umframgjöld milli ára án þess að afla sérstakra heimilda í fjáraukalögum eða lokafjárlögum. Ljóst er að ferju- og flóabátarekstur er lögbundinn hluti að verkefnum Vegagerðarinnar og sérstaklega tilgreindur bæði í Samgönguáætlun og fjárlögum hvers árs. Framlög til þessa liðar hafi bæði náð til rekstrarkostnaðar og til greiðslu eftirstöðva stofnkostnaðar af þeim ferjum sem ríkissjóður yfirtók þegar rekstur sérstakra ferjufyrirtækja í hlutafélagaformi var aflagt. Með hliðsjón af þessu og heimildar í 6. gr. fjárlaga telur ráðuneytið að svo langt sem fjárreiðulögin ná, hafi ákvörðun um að heimila Vegagerðinni að nýta tímabundið ónotaðar lögákveðnar heimildir verið innan þess ramma sem fjárreiðulög setja.