SUS harmar agaleysi við framkvæmd fjárlaga

SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, hefur sent frá sér ályktun þar sem harmað er það aga- og ráðdeildarleysi forstöðumanna alltof margra ríkisstofnana, sem birtist í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga síðasta árs. Þetta agaleysi lýsi sér í því að þeir eyða meiru en þeim sé heimilt samkvæmt fjárlögum.

Fram komi í skýrslunni að fjárlög hafi mælt fyrir um 315,1 milljarðs króna útgjöld í fyrra en endanleg fjárheimild hafi hækkað um nálægt 12% og verið 352 milljarðar. Þá séu dæmi um að stofnanir séu reknar með viðvarandi og jafnvel vaxandi halla árum saman án þess að gripið sé í taumana.

„SUS krefst þess af forstöðumönnum ríkisstofnana að þeir reki stofnanir sínar innan fjárheimilda og að ráðuneyti beiti ella þeim úrræðum sem að lögum eru tæk gagnvart þeim, svo sem áminningu eða lausn frá störfum. Þá áréttar SUS þá ábyrgð sem á ráðherrum og ráðuneytum hvílir gagnvart Alþingi að búa svo um hnúta að fjárlögum sé fylgt og að látið sé af því óásættanlega umburðarlyndi sem ríkjandi hefur verið í stjórnkerfinu gagnvart brotum gegn þeim lögum," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert