Væntingar og vonbrigði

Frá sumarbúðunum í Hjallaskóla
Frá sumarbúðunum í Hjallaskóla mbl.is/Brynjar Gauti
Eftir Einar Jónsson - einarj@bladid.net

Fjöldi sex ára barna hefur skólagöngu um þessar mundir og eru þau oftar en ekki full eftirvæntingar og spennu af þeim sökum. Mikilvægt er að foreldrar veiti börnum sínum stuðning á þessum tímamótum því að þá eru meiri líkur á að þeim líði vel í skólanum og að umskiptin verði ánægjuleg. Hugo Þórisson sálfræðingur segir að grundvallaratriði sé að foreldrar og aðrir aðstandendur sýni skólagöngu barnsins áhuga og séu jákvæðir gagnvart skólanum og starfsfólki hans.

Þá skiptir höfuðmáli að gott samstarf sé á milli foreldra og kennara og gagnkvæmt upplýsingaflæði þar á milli. „Foreldrar verða að láta vita af öllum þeim atburðum í lífi barnsins sem hafa áhrif á líðan þess. Ef það kemur eitthvað upp á, hvort sem það er gott eða erfitt, verða kennararnir að fá að vita það," segir Hugo.

Stundum stenst skólinn ekki þær væntingar sem byggst hafa upp hjá barninu og geta vonbrigðin þá að sama skapi verið mikil. Hugo segir að þá verði foreldrar að vera góðir hlustendur. "Þeir verða að leyfa barninu að finna að það geti talað um þessi vonbrigði og leiðbeina því ef væntingarnar voru mjög óraunhæfar," segir hann.

„Ýktasta dæmið sem ég hef heyrt á mínum starfsferli er af sex ára barni sem kom heim eftir fyrsta daginn og settist með dagblað og reyndi að lesa því að það voru allir búnir að segja að það myndi læra að lesa í skólanum," segir hann.

Hugo mælir með því að foreldrar mæti með barninu í skólann svo lengi sem það þarf á því að halda fyrstu dagana, kenni því að fara örugga leið. Þá þurfi að koma reglu á svefn- og matarvenjur barnsins og því fyrr sem það er gert, þeim mun betra.

Nánar í Blaðinu í dag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert