Bubbi Morthens í átökum við stórlax

Í morgum ám hafa veiðimenn fundið meira af sjóbleikju en …
Í morgum ám hafa veiðimenn fundið meira af sjóbleikju en síðustu sumur. Þessi tók flugu í Fljótaá. mbl.is/Golli

Ágætis laxveiði hefur verið á norðausturhorni landsins síðustu vikur. Veiðimenn sem deildu stöng í Svalbarðsá í Þistilfirði fyrir helgi veiddu afar vel, náðu 15 löxum. Þar á meðal var einn 19 punda og fjórir um 15 pund.

Í síðustu viku veiddust 227 laxar í Hofsá í Vopnafirði. Þar á meðal veiddi Edda Helgason stærsta lax sumarsins í ánni til þessa í Ferjuhyl, 97 cm langan hæng, og tók hann rauða Frances-keilu.

Samkvæmt upplýsingum Eddu var umtalsverðum hluta veiðinnar sleppt aftur, eða 147 löxum. Skylt er að sleppa öllum laxi sem mælist yfir 74 cm en 46 laxanna voru yfir þeirri lengd og teljast til stórlaxa. Veiðin þessa daga var 4,6 laxar á stöng sem telst afar gott.

Bubbi í ævintýrum í Aðaldal
Heldur hefur verið að rætast úr veiðinni í Laxá í Aðaldal eftir afar dræma veiði alveg inn í ágústmánuð. Félagar sem eru nú á Nesveiðunum hafa verið að fá einn til tvo laxa á stöngina á dag, en segja mikið líf á svæðinu og mikið að gerast. Nesveiðar eru ekki frægar fyrir mokveiði, heldur fyrir stóra laxa. Gísli Ásgeirsson er einn veiðimannanna og sagðist hann hafa orðið vitni að sannkölluðu veiðiævintýri í fyrradag, þegar Bubbi Morthens setti í eitt þeirra trölla sem enn leynast í hyljum árinnar, á þeim magnaða veiðistað Núpafossbreiðu. Hinn kunni bandaríski veiðimaður Art Lee veiddi þar árum saman og kallaði fossbreiðuna í frægri grein „platform of my despair“, eða þann stað þar sem örvæntingin næði á honum hvað sterkustum tökum.

Að sögn Gísla setti Bubbi í sannkallað tröll á fossbrúninni, „30 pundara“. Laxinn dembdi sér niður fossinn – og fór síðan upp aftur og þá var heilmikil slýdræsa sest á tauminn. Það var ekkert gefið eftir í átökum veiðimanns og fisks og að lokum réttist úr öngulkrókunum – en Bubbi var með Loop-öngul, sem margir telja þá sterkustu. „Þetta var gríðarlega stór lax. Þetta voru hrikalegar æfingar,“ sagði Gísli.

Bubbi heldur mikið upp á skrif Arts Lees og er við hæfi að í fyrstu veiðiferð hans á Nesveiðarnar lendi hann í ævintýrum á þeim stað sem olli Lee svo miklu hugarangri. Á vefnum votnogveidi.is segir að neðst í Laxá, við Æðarfossa, hafi veiðimenn orðið varir við mikið af göngulaxi síðustu daga. Þar á meðal var Arthur Bogason, talsmaður smábátaeigenda, sem þekkir Laxá vel. Setti hann í og landaði níu löxum á einni morgunvaktinni.

Tökuglaður lax í Soginu
Áfram heyrast sögur af ævintýrum í Soginu, en Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen veiddu við Þrastarlund á sunnudag og lönduðu fimm löxum á stöngina. Misstu þau aðra fjóra, þar á meðal einn mjög vænan, og urðu vör við marga fleiri. Sumir laxanna voru grálúsugir.

Í Hrútafjarðará hafði Óli Björn Zimsen hendur á vænum stórlaxi á dögunum, eftir að hafa glímt við hann í 40 mínútur. Var það 105 cm hængur, sem er 23 pund samkvæmt viðmiðunartöflu Veiðimálastofnunar. Var honum sleppt sprækum aftur út í strauminn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert