Fjárhæðin hærri en Landsvirkjun gerði ráð fyrir

Úrskurður matsnefndarinnar var kveðinn upp í Hótel Héraði í morgun.
Úrskurður matsnefndarinnar var kveðinn upp í Hótel Héraði í morgun. mbl.is/Gunnar

Lögmaður Landsvirkjunar segir úrskurð matnefndar, sem í dag úrskurðaði að Landsvirkjun beri að greiða landeigendum við Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Keldá rúmlega 1,6 milljarðar króna fyrir vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar, vera hærri fjárhæð en fyrirtækið hafi átt von á miðað við fyrri fordæmi í sambærilegum málum.

„Þessi fjárhæð er hærri en við gerðum ráð fyrir, en við byggðum það á fyrri fordæmum sem hafa verið í sambærilegum málum, þ.e. virkjanir sem selja til stóriðju,“ segir Þórður Bogason, lögmaður Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.

Hann segir að Landsvirkjun muni nú skoða úrskurð matsnefndarinnar og þá vildi hann ekkert segja til um hvort fyrirtækið muni skjóta málinu til dómstóla eður ei. „Landsvirkjun mun skoða þessar forsendur sem eru fyrir hendi, en auðvitað er úrskurðurinn mikilvægur. Það er búið að leggja mikla vinnu í þessa matsvinnu alla saman. Matsnefndin tekur ákveðin atriði sem ekki hafa verið fjallað um í fyrri dæmum, og metur til hækkunar,“ sagði Þórður og bætti við að nú verði röksemdarfærslan fyrir þessu skoðuð.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu, að Landsvirkjun eigi að greiða vatnsréttareigendum að Jökulsá á Dal samtals 1.222.611.305 krónur í fullnaðarbætur fyrir þau vatnsréttindi, sem nýtt verði til að knýja hverfla Fljótsdalsvirkjunar. Þá greiði Landsvirkjun eigendum vatnsréttinda í Jökulsá í Fljótsdal 300.866.316 milljónir króna og vatnsréttareigendum að Kelduá 110.918146 krónur. Þá á Landsvirkjun að greiða rúmar 42 milljónir króna í málskostnað.

Að úrskurðinum stóðu Skúli J. Pálmason, fyrrverandi héraðsdómari, Gestur Jónsson, lögmaður, Sigurður Þórðarson, verkfræðingur og Sverrir Ingólfsson, löggiltur endurskoðandi. Egill Benedikt Hreinsson, prófessor í rafmagnsverkfræði, skilaði sératkvæði og taldi að fullar bætur vegna eignarnáms vatnsréttinda Kárahnjúkavirkjunar ættu að vera að minnsta kosti 10 milljarðar króna.

Fram kemur í úrskurðinum að Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Skúla í nefndina en hann valdi þá Sigurð og Sverri með sér. Landsvirkjun tilkvaddi Gest og vatnsréttarhafar tilnefndu Egil Benedikt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert