Íbúðalánavextir hafa hækkað um 43%

Vextir á íbúðalánum hafa hækkað mikið undanfarin misseri.
Vextir á íbúðalánum hafa hækkað mikið undanfarin misseri.
Eftir Magnús Geir Eyjólfsson - magnus@bladid.net
Vextir á íbúðalánum hafa hækkað verulega á undanförnum misserum og hafa þeir ekki verið hærri síðan viðskiptabankarnir hófu að bjóða slík lán fyrir þremur árum. Þá voru vextirnir 4,15 prósent og stóðu þeir í þeirri tölu fram til fyrstu mánaða ársins 2005. Síðan hafa þeir hækkað reglulega og til að mynda hafa vextir Glitnis og Kaupþings hækkað um 40 prósent á þessum þremur árum.

Þegar viðskiptabankarnir fengu aðgang að íbúðalánamarkaðnum sumarið 2004, jókst aðgengi almennings að lánsfé til muna. Voru það ekki síst lægri vextir og hærra lánshlutfall sem varð til þess að fasteignamarkaðurinn fór á fullt.

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, telur að vaxtahækkanirnar undanfarið verði ekki til þess að fasteignamarkaðurinn dragist saman. „Fólk á engra annarra kosta völ. Það er í þessum darraðardansi að kaupa sér fasteign og það hefur enga aðra möguleika en að taka lánin með þessum hætti," segir Ingibjörg.

Hún segir að helstu áhrifin gætu orðið þau að fólk keypti sér ódýrari eignir en það hefði ella gert upp á greiðslubyrðina að gera. „Greiðslubyrðin er orðin mikil þegar verðbólgan er tekin með í reikninginn. Fólk er að borga töluvert meira fyrir milljónina þegar vextirnir eru komnir upp í 5,90 prósent heldur en þegar þeir voru 4,15 prósent. Þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir skuldara, því fólk er að skuldsetja sig til allt að 40 ára."

Ingibjörg bendir einnig á að lántöku fylgi annar kostnaður og nefnir hún lántöku- og stimpilgjöld í því samhengi. Þá þarf einnig að greiða uppgreiðsluþóknun vilji fólk losna við óhagstæð lán, en hún gæti hækkað nokkuð þegar vextir taka að lækka á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert