Útvarpsstöðin Rvk Fm stóð fyrir keppninni á Menningarnótt, en Jón sporðrenndi 14 pylsum á 12 mínútum sem tryggði honum öruggan sigur.
Jón, sem er bróðir „Fóstbróðurins" Gunnars Jónssonar, segist ekki hafa leitað til bróður síns fyrir keppnina, en segir aftur á móti afa sinn hafa gefið sér góð ráð.
„Ég notaði bara gamalt trix frá afa - að borða bara hratt og stöðugt. Hann lifði á þannig tíma að sá sem var fljótastur fékk mest við matarborðið."
Fyrir helgi birti Blaðið viðtal við Kristján Knútsson, sem þótti gríðarlega sigurstranglegur, og hann sagðist meðal annars hafa borðað 22 pylsur á einum degi. Kristján kom tíu pylsum niður í keppninni og hafnaði í öðru sæti. „Hann koksaði í miðri keppni," segir Jón og bætir við að í upphafi ætlaði hann ekki að taka þátt.