Lögmenn landeigenda við Jökulsá á Dal hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna úrskurðar matsnefndar um bætur vegna vatnsréttar sem kveðinn var upp í dag. Í yfirlýsingunni segir að úrskurðurinn komi á óvart að meirihluti matsnefndarinnar skuli álykta að núgildandi laga- og matsumhverfiá raforkumarkaði skipti ekki máli við mat vegna Kárahnjúkavirkjunar og segjast vatnsréttarhafar telja að þar með sé verið að láta vatnsréttarhafa greiða hugsanlegan samfélagslegan kostnað verkefnisins.
Þá segir m.a. í yfirlýsingunni að mat upp á 1,6 milljarða króna fyrir vatnsréttindin jafngildi því að heildarverðmæti virkjanlegs vatnsafls á Íslandi (30 TWst), sé alls 11,7 milljarðar króna.
Í yfirlýsingunni er það gagnrýnt að meirihluti matsnefndar skuli álykta, að núgildandi lagaumhverfi og markaðsumhverfi sem sé til staðar á raforkumarkaði, skipti engu máli við mat á vatnsréttindum við Kárahnjúkavirkjun. Að vatnsréttarhafar skuli neyddir til að sætta sig við verðmætamat á öðrum forsendum, af því að virkjunaraðili hefur ákveðið að selja raforkuna til álvers. Telja vatnsréttarhafar að þar með sé verið að láta vatnsréttarhafa greiða hugsanlegan samfélagslegan kostnað verkefnisins.
Vatnsréttarhafar fóru fram á um 60 milljarða króna bætur gegn Landsvirkjun, sem mat slíkar bætur á 375 milljónir hið hæsta. Fram kom í fréttum fyrr í dag að talsmaður landeigenda telur ólíklegt að þeir muni una úrskurðinum, en frestur til áfrýjunar rennur út eftir sex vikur.