Leit að Þjóðverjum enn árangurslaus

Frá stjórnstöð í Skaftafelli í morgun.
Frá stjórnstöð í Skaftafelli í morgun. mynd/Sigurður Mar Halldórsson

Leit að tveimur Þjóðverjum sem saknað hefur verið síðan 17. ágúst og hófst formlega í gær hefur enn engan árangur borið. Leit var haldið áfram í morgun og þyrla Landhelgisgæslunnar m.a. notuð. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landbjargar hafa leitað í allan dag í og við Skaftafell. Veður hefur nokkuð tafið leitina en mikil rigning var í Skaftafelli fyrr í dag.

Á sjöunda tug björgunarsveitamanna hefur tekið þátt í leitinni, bæði á láglendi og eins hafa sérþjálfaðir fjallabjörgunarmenn leitað í nærliggjandi fjalllendi og á jöklinum sjálfum. Vísbendingar sem borist hafa lögreglu hafa verið kannaðar og leitað hefur verið á flestum þeim stöðum, sem líklegir geta talist. Einnig hefur verið leitað úr lofti með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Ráðgert er að leita fram í myrkur í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður í Freysnesi í nótt. Ef leitin ber ekki árangur í kvöld verður henni haldið áfram á morgun. Þá mun áhersla vera á leit úr lofti auk þess sem vísbendingum verður fylgt eftir.

Verið er að skipuleggja mjög umfangsmikla leit sem farið verður í um helgina ef þýsku ferðamennirnir finnast ekki í kvöld eða á morgun. Ef fólk hefur einhverjar vísbendingar um ferðir mannanna er það vinsamlegast beðið að hafa samband við lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert