Talsmaður landeigenda við Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Keldá segir ekki líklegt að þeir muni una úrskurði matsnefndar, sem í dag úrskurðaði að jörðunum beri rúmlega 1,6 milljarðar króna fyrir vatnsréttindi vegna Kárahnjúkavirkjunar. Landeigendurnir hafa sex vikur til þess að áfrýja úrskurðinum.
Vatnsréttarhafarnir og lögmenn þeirra munu funda í dag um úrskurð matsnefndarinnar og fara yfir næstu skref í málinu.
Einn nefndarmaður skilaði sératkvæði. Hann telur að bæturnar til handa landeigendunum eigi að vera mun hærri, og vísar hann til breytinga sem hafa orðið á markaði. Hann telur að greiðslan eigi að minnsta kosti að vera 10 milljarðar króna eða sjöföld sú upphæð sem landeigendunum var dæmd. Landeigendur fóru hins vegar fram á að verðmæti vatnsréttindanna yrðu metin á 60 milljarða króna.