Stórskuldug vegna skorts á plássi á frístundaheimili

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur - ingibjorg@bladid.net

Vegna skorts á plássi á frístundaheimili frá upphafi skólaárs fyrir tveimur árum þar til um miðjan mars næsta ár varð Díana Ósk Óskarsdóttir, sem er einstæð móðir, stórskuldug auk þess sem hún gat ekki lokið stúdentsprófi eins og hún hafði ætlað sér. Díana er þess fullviss að svipaður vandi muni blasa við mörgum einstæðum mæðrum í vetur sem ekki fá pláss á frístundaheimilum fyrir börn sín.

„Ég á enga að til að grípa inn í þegar svona stendur á. Þegar dóttir mín, Amanda Líf, var í 1. bekk í Foldaskóla fyrir tveimur árum gat ég ekki hugsað mér að hún yrði eftirlitslaus eftir hádegi. Ég vildi frekar missa tekjurnar og hafa hana í öruggum höndum. Auðvitað er þetta hrikalegur tekjumissir fyrir einstæða móður. Í fyrra fékk Amanda pláss nokkrum vikum eftir að skólinn byrjaði þannig að ég þurfti ekki að vera jafnlengi frá vinnu þá. Nú vorum við ótrúlega heppnar og fengum strax pláss á frístundaheimilinu," segir Díana.

Þegar Amanda hóf skólagöngu sína gerði Díana ráð fyrir að þurfa að vera frá vinnu eftir hádegi í nokkrar vikur í mesta lagi. „Biðin eftir plássi lengdist hins vegar sífellt og Amanda komst ekki að á frístundaheimilinu fyrr en seinni hlutann í mars. Ég þurfti að velta öllum greiðslum áfram og stóð uppi með stóra skuld eftir veturinn," greinir Díana frá. Hún bætir því við að á meðan hún hafi verið heima með dóttur sinni hafi hún orðið vör við að börn í 1. bekk gengu sjálfala um með lykil um hálsinn. Hún gat ekki hugsað sér að hafa þann háttinn á.

Þar sem Díana gat ekki mætt í allar þær kennslustundir sem hún þurfti til að ljúka stúdentsprófi féll hún á svokölluðu punktakerfi. „Það voru ýmsir nemendur í skólanum í hrikalegum vandræðum vegna skorts á plássi á frístundaheimili," segir Díana sem gat loks lokið prófinu í fyrra.

Nánar í Blaðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert