Vilhjálmur Vilhjálmsson, borgarstjóri, segist engar tillögur hafa um breyttan opnunartíma skemmtistaða, og að slíkar breytingar verði ekki gerðar nema í nánu samstarfi við rekstraraðila. Hann segir sýnileika lögreglu og eftirlitsmyndavélar hafa mikið að segja þegar kemur að því að leysa ástandið í miðborginni um helgar.
Þetta kom fram á fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt með borgaryfirvöldum og veitingamönnum í dag, og sagði Vilhjálmur meðal annars að með sameiginlegu átaki eigi að setja það markmið að venjulegir vegfarendur geti gengið óáreittir um höfuðborgina.
Vilhjálmur sagði borgaryfirvöld reiðubúin að leggja í ákveðinn kostnað til að aðstoða lögregluna, bæði um helgar og að degi til, en einnig að kaupa fleiri eftirlitsmyndavélar, sem þegar hafi sannað gildi sitt.