Um 60 björgunarsveitarmenn leita að þýskum ferðalöngum í Skaftafelli

Frá stjórnstöð í Skaftafelli í morgun.
Frá stjórnstöð í Skaftafelli í morgun. mynd/Sigurður Mar Halldórsson

Á sjötta tug björgunarsveitarmanna leita nú að tveimur þýskum ferðamönnum í Skaftafelli og nágrenni, en Þjóðverjanna hefur verið saknað eftir að þeir skiluðu sér ekki til Þýskalands með flugi sem þeir áttu bókað þann 17. ágúst sl. Þyrla verður send til leitar síðar í dag.

Skipuleg leit að mönnunum hófst með formlegum hætti í gær en hún bar engan árangur. Björgunarsveitarmenn hófu aftur leit um sexleytið morgun og mun leitin standa fram eftir degi.

Friðfinnur Guðmundsson, sem situr í landsstjórn björgunarsveita, sagði í samtali við mbl.is að beðið sé eftir því að það létti til á leitarsvæðinu svo hægt verði að senda þyrlu til að aðstoða við leitina. Sem stendur er mjög þungbúið á svæðinu en búist er við því að það muni létta til síðar í dag. Þá mun þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoða við leitina.

Í nótt fóru undanfarar úr björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu austur en þeim var ætlað að leita hluta Virkisjökuls en það svæði er erfitt yfirferðar og hættulegt. Undanfarahópa skipa reyndasta fjallabjörgunarfólk félagsins. Veður hefur þó hamlað leit, en mikil rigning er í Skaftafelli og mjög lágskýjað. Bíða undanfararnir því færis á að komast á jökulinn.

Að sögn Friðfinns hafa engar nýjar vísbendingar borist um hvar mennirnir séu niðurkomnir. Ekkert hefur spurst til þeirra síðan 30. júlí sl. þegar þeir tóku á móti sms-skilaboðum í Skaftafelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert