19,1 milljarðs króna hagnaður hjá Landsvirkjun

Hagnaður af rekstri Landsvirkjunar nam 19,13 milljörðum króna eftir skatta á fyrri hluta ársins en á sama tímabili á síðasta ári var tæplega 2,6 milljarða króna hagnaður af rekstrinum. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta var 5469 milljónir króna og gengishagnaður nam 18,6 milljörðum króna. Rekstrartekjur voru 10,7 milljarðar króna og handbært fé frá rekstri nam 4026 milljónum króna.

Landsvirkjun segir að sem fyrr ráðist afkoman að verulegu leyti af þróun á gengi íslensku krónunnar en stór hluti langtímaskulda fyrirtækisins sé í erlendri mynt. Segir fyrirtækið, að breyting íslensku krónunnar á móti helstu myntum um 10% frá gildinu sem var í lok júní hefði breytt afkomu fyrirtækisins um 13 milljarða króna og sé þá ekki tekið tillit til skattaáhrifa. Frá næstu áramótum verður Bandaríkjadollar starfrækslugjaldmiðill Landsvirkjunar.

Breytingar eru á árshlutareikningnum vegna upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Breytingin hefur þau heildaráhrif á eigið fé samstæðunnar að bókfært eigið fé í ársbyrjun 2007 hækkar um 19,9 milljarða króna eða úr 62,7 milljörðum króna í 82,6 milljarða króna. Í lok júní námu heildareignir fyrirtækisins 293,5 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 34,5%.

Í tilkynningu segir, að horfur um rekstur Landsvirkjunar séu góðar fyrir árið 2007. Fljótsdalsstöð verði tekin í notkun á árinu og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins. Gengisþróun og þróun álverðs muni þó ráða miklu um afkomu ársins. Tilkynning Landsvirkjunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert