Alls hefja 932 nýir nemar nám við Kennaraháskóla Íslands í haust. Alls bárust tæplega 1500 umsóknir um nám við skólann, þar af 995 umsóknir um grunnnám og 495 um framhaldsnám en hluti umsækjenda staðfesti ekki umsóknirnar og hluta var hafnað, m.a. vegna þess að hann uppfyllti ekki kröfur um stúdentspróf eða sambærilegt nám.
Umsóknir um grunnnám í grunnskólakennarafræði, leikskólakennarafræði, íþróttafræði, tómstunda- og félagsmálafræði og þroskaþjálfafræði voru 873 og fjölgaði um 10% frá því í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá skólanum. Mest fjölgaði umsóknum um leikskólakennarafræði og þroskaþjálfafræði.
Mikil fjölgun varð á umsóknum um viðbótarnám til gráðu og K-nám eða tæp 44%. Umsóknir um meistaranám og doktorsnám voru 389 í ár og fækkaði lítillega frá því í fyrra en þá voru þær 424. Þá sóttu 117 um kennsluréttindanám, 11 á bakkalárstigi og 106 á meistarastigi.
Umsóknum um fjarnám fjölgaði töluvert og helmingi fleiri hefja nám í leikskólakennarafræði nú en í fyrra, eða 109 á móti 53 í fyrra.
Rúmlega 2700 nemendur eru nú skráðir í skólann.