Matvælarannsóknir Íslands (Matís) og Háskólinn á Hólum taka nú þátt í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem nefnist Nýr norrænn matur og matargerðarlist, en verkefninu er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu. Þá eiga Matís og Háskólinn á Hólum fulltrúa í norrænum stýrihópi sem er ætlað að hvetja til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og styðja við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.
Samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Matís er tilgangur verkefnisins að leita leiða til að markaðssetja norræn matvæli á þeim grundvelli að þau búi yfir sérstökum eiginleikum sem bæti heilsu fólks, þ.e. hreinleika, bragðgæðum og hollustu. Þá vilji forsvarsmenn verkefnisins freista þess að nýta sívaxandi áhuga fólks í Evrópu á að kynnast og upplifa mat frá tilteknum svæðum.
Markmið verkefnisins er einnig að efla samstarf landanna á sviði matvælaframleiðslu og tengja hana verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, byggðaþróunar og viðskipta og að skapa jákvæðara viðhorf meðal Norðurlandabúa til eigin matarmenningar.