Frá því hálfu ári eftir að lög um tóbaksvarnir tóku gildi árið 2002 hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki veitt undanþágur frá 18 ára aldurstakmarkinu vegna afgreiðslu á tóbaki. Eigandi söluturns í Reykjavík kveðst fullviss um að lögin séu víða brotin.
„Við veittum undanþágur fyrstu sex mánuðina eftir gildistöku laganna en höfum ekki gert það síðan," segir Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri hollustuháttadeildar heilbrigðiseftirlitsins.
Heiðbjört Haðardóttir, eigandi söluturnsins Þristsins við Seljabraut, segir erfitt að fá unglinga eldri en 18 ára til afgreiðslustarfa.
„Reglan hjá mér er sú að unglingar yngri en 18 ára kalli á fullorðinn afgreiðslumann til að afgreiða tóbak," segir Heiðbjört en viðurkennir að það komi fyrir að ekki sé alltaf afgreiðslumaður eldri en 18 ára á svæðinu til að afgreiða tóbak yfir borðið.
Heiðbjört, sem ekki hefur sótt um undanþágu til heilbrigðiseftirlitsins, telur að í mörgum verslunum í Reykjavík selji unglingar undir 18 ára aldri tóbak. Blaðið greindi frá því fyrir helgi að í verslun Krónunnar á Reyðarfirði afgreiddu 1416 ára unglingar tóbak.
Veita má tímabundna undanþágu frá 18 ára aldurstakmarkinu vegna manneklu eða sérstakra aðstæðna. Óheimilt er að veita undanþágu vegna unglinga yngri en 16 ára.
Nánar í Blaðinu