Konan beitt ofbeldi

Eftir Heiðu Björk Vigfúsdóttur - heida@bladid.net

Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, segir að þegar þvagsýni var tekið gegn vilja konu með þvaglegg á lögreglustöðinni á Selfossi í mars síðastliðnum, hafi hún verið beitt ofbeldi.

„Ég hef heyrt að blóðsýni hafi verið tekin gegn vilja viðkomandi en aldrei þvagsýni. Maður getur bara sjálfur sett sig í stöðu viðkomandi einstaklings og er sú tilhugsun óbærileg," segir Sigurbjörn.

Vill hann að settar verði starfsreglur um töku blóð og þvagsýna í samstarfi við lögreglu og dómsyfirvöld.

Bogi Nilsson ríkissaksóknari segir að hverju lögregluembætti fyrir sig sé frjálst að setja verklagsreglur og hafi lögreglan í Reykjavík sett reglur um meðferð ölvunarakstursmála fyrir fjórum árum. Telur hann að gott væri að setja verklagsreglur fyrir blóð og þvagsýnatökur sem gilda fyrir allt landið.

Sigurbjörn Sveinsson segir að ekki þurfi að taka þvingaða þvagsýnaprufu, þrátt fyrir að einstaklingur neiti að veita hana, þar sem bíða megi eftir henni.

„Þvagið kemur á endanum. Þegar beðið er með prufuna þá geta efni þynnst út í þvagi. En það er hins vegar hægt að reikna út áfengis og vímuefnamagn aftur í tíma og finna til dæmis út hver neyslan hefur verið. Mér er ekki kunnugt um tilvik þar sem það myndi spilla sönnunargagni að bíða eftir þvaginu."

Sigurbjörn segir að einstaklingur geti hlotið skaða af því að þvaglegg sé komið fyrir án samþykkis hans.

„Þetta er inngrip og við bestu aðstæður geta öllum slíkum inngripum fylgt fylgikvillar. Sú hætta hlýtur svo að stóraukast við þær aðstæður sem skapast þegar svona er framkvæmt gegn vilja viðkomandi."

Nánar í Blaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert