Þyrla Landhelgisgæslunnar fann fyrir nokkrum mínútum tvö tjöld ofarlega í Svínafellsjökli, þar sem hún hefur verið við leit að tveimur þýskum ferðamönnum í dag. Að sögn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hafa björgunarsveitarmenn skoðað tjöldin og staðfest að þau tilheyri mönnunum sem leitað er að. Ekkert hefur hins vegar sést til mannanna.
Björgunarsveitarmönnum hefur nú verið beint á svæðið til að leita að ferðamönnunum. Aðspurður segir Friðfinnur Guðmundsson, hjá Landsstjórn björgunarsveita, að persónulegir munir hafi fundist í tjöldunum sem staðfesti að þau séu í eigu mannanna sem er saknað. Hann segir að ekkert hafi hinsvegar sést til mannanna. Hann segir að nú sé verið að skipuleggja leit á svæðinu í kringum þann stað þar sem tjöldin fundust.
Jafnframt er unnið að skipulagningu umfangsmikillar leitar sem fram fer um helgina hafi mennirnir ekki fundist fyrir þann tíma.
Töluverð rannsóknarvinna hefur verið unnin og verður henni haldið áfram. Í dag verður reynt að komast í samband við vini og vinnufélaga Þjóðverjanna og rætt meira við nána ættingja þeirra.
Þeir sem telja sig hafa upplýsingar um ferðir mannanna hér á landi eru beðnir um að hafa samband við lögregluna.