Í dag fundaði fjárlaganefnd Alþingis og á þeim fundi voru fulltrúar Vegagerðar Ríkisins og fulltrúar fjármálaráðuneytisins og fóru yfir sinn þátt í máli Grímseyjarferjunnar. „Þarna áttu sér stað mjög góð skoðanaskipti milli manna," sagði Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Hvert verður áframhaldið? „Á fundinum komu fram upplýsingar frá Einari Hermannssyni verkfræðingi og við tókum þá ákvörðun að bjóða Einari að koma á fund nefndarinnar sem haldinn verður 3. september," sagði Gunnar.
„Þá munum við einnig boða samgönguráðuneytið og ríkiskaup," bætti Gunnar við.
Gunnar sagði að fjárlaganefndin væri ekki beint að rannsaka Grímseyjarferjumálið heldur að fjalla um það efnislega í framhaldi skýrslu Ríkisendurskoðunar.
„Við erum líka að nýta okkur það að á sama tíma kemur út skýrsla um framkvæmd fjárlaga fyrir allt árið 2006 hjá stofnunum ríkisins og þar af leiðandi erum við að tengja þetta saman," sagði Gunnar.
Munu einhverjar breytingar verða gerðar í kjölfar þessarar umfjöllunar fjárlaganefndar? „Það má vel vera að þetta geti leitt af sér einhverjar breytingar eða tillögur um breytingar á lögum eða leiða til einhvers annars verklags," sagði Gunnar en bætti því við að fyrst væri að klára að fara yfir málið til hlítar.