Lögreglumenn voru áberandi í grennd við grunnskólana á höfuðborgarsvæðinu í morgun, þegar fyrsti kennsludagur skólaársins hófst. Allt mun hafa gengið vel og slysalaust fyrir sig og ekki þurfti að grípa til neinna aðgerða.
Eins og undanfarin ár stendur lögreglan nú að eftirlitsátaki við skólana á morgnana, og er áhersla lögð á að lögreglumenn séu vel sýnilegir við skólana. Þetta eftirlit verður væntanlega mest fyrstu vikurnar sem skólarnir starfa, en þó stefnir lögreglan að því að hafa eftirlit við skólana á morgnana í allan vetur eftir því sem tök eru á.
Lögreglan hefur þó hvorki mannafla né bíla til að hafa eftirlit við alla skóla alla morgna, en grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu eru nú alls hátt í áttatíu talsins og fer fjölgandi.