Á fimmta hundrað íbúa í nágrenni Keilugranda andmæla skipulagstillögum

Í fyrstu tillögu var gert ráð fyrir allt að 12 …
Í fyrstu tillögu var gert ráð fyrir allt að 12 hæða húsi á lóðinni við Keilugranda 1 en nú er gert ráð fyrir allt að níu hæða húsi.

Íbúar í nágrenni Keilugranda 1 í Reykjavík hafa sent borgarstjóra og borgarfulltrúum bréf vegna fyrirhugaðra breytinga borgarinnar á leyfilegri hámarksbyggð á lóðinni. Þá hafa 437 íbúar hverfisins skrifað undir athugasemdir við skipulagstillögur varðandi þennan reit.

Gert er ráð fyrir að á lóðinni rísi allt að níu hæða hús með bílakjallara á tveimur hæðum. Íbúar í nágrenninu gerðu athugasemdir við hugmyndir um bygginguna í ársbyrjun og ítreka þær nú. Segir í bréfinu til borgarstjóra, að byggð á svæðinu sé þegar mjög þétt og hærri en í öðrum sambærilegum hverfum. Meðal afleiðinga af tillögum borgarinnar séu mikið skuggavarp, stórskert útsýni, sjónmengun, miklir sviptivindar, áhrif á grunnvatnsstöðu og stóraukin umferðarþungi.

Íbúarnir leggja áherslu á að rétturinn til að byggja á lóðinni hafi aldrei verið véfengdur. Þær framkvæmdir megi hins vegar ekki vera á kostnað lífsgæða og fjárhags íbúa í nágrenninu heldur verði skipulagsyfirvöld að fylgja þeim reglum, sem þau hafi sjálf sett en geri ekki allt í einu á þeim geðþóttabreytingar, sem virðist aðeins þjóna væntingum og hagnaðarsjónarmiðum eigenda reitsins. Segja íbúarnir í bréfi sínu að gera verði þá lágmarkskröfu, að kjörnir fulltrúar og embættismenn fari eftir þessu í störfum sínum en svo virðist sem aðeins minnihluti borgarstjórnar hafi gert það í þessu máli.

„Mikil alda reiði og undrunar hefur risið meðal íbúa í nágrenni reitsins," segir m.a. í bréfinu til borgarstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert