Á þriðja tug sérhæfðra fjallgöngumanna leitar nú að tveimur þýskum fjallgöngumönnum á Svínafellsjökli. Að sögn Friðfinns Guðmundssonar, í Landsstjórn björgunarsveita, er veðrið með ágætasta móti og hefur þyrla Landhelgisgæslunnar getað flutt menn upp á jökulinn. Þeir kanna nú líklegar slóðir en aðstæður til leitar á jöklinum eru mjög erfiðar.
Friðfinnur segir að vegna veðurs hafi ekki náðst að klára að leita á því svæði sem stefnt hafði verið að í gær, þ.e. leiðin sem liggur frá tjöldum þýsku ferðamannanna upp á Hvannadalshnjúk. Hann segir að björgunarsveitarmenn hafi lagt af stað gangandi upp á Hnjúkinn í nótt til að ganga á móti félögum sínum í dag.
Friðfinnur bendir á að ekki hefur verið hægt að leita með þyrlu í kringum hnjúkinn sökum slæms skyggnis.
Björgunarsveitarmennirnir munu jafnframt leita á svæðinu í kringum tjald mannanna, sem fannst á Svínafellsjökli. Auk þess munu þeir kanna íshella og láta sig síga í íssprungur á svæðinu.
„Þetta er mjög erfitt svæði og við höfum takmarkaðan mannskap til þess að leita á svæðinu því þetta er mjög hættulegt. Þeir sem voru þarna upp frá í gær áttu alveg nóg með sjálfa sig, og svo þurftu þeir að leita líka. Þannig að þetta eru mjög erfiðar aðstæður,“ sagði Friðfinnur í samtali við mbl.is.