Ekki gefin út ný hvalveiðileyfi vegna markaðsaðstæðna

Langreyður dregin í land við Hvalstöðina í Hvalfirði á síðasta …
Langreyður dregin í land við Hvalstöðina í Hvalfirði á síðasta ári. RAX

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, segir að ekki verði gefin út ný leyfi fyrir hvalveiðum í atvinnuskyni fyrr en markaðir opnist fyrir hvalkjöt og Japanar heimila innflutning á hvalkjöti. Reutersfréttastofan hefur eftir Einari að tilgangslaust sé að gefa út ný veiðileyfi eftir að núverandi fiskveiðiári lýkur um mánaðamótin ef enginn markaður sé fyrir hvalkjötið.

„Hvalveiðiiðnaðurinn verður, eins og annar iðnaður, að beygja sig undir markaðslögmálin. Ef enginn hagnaður er af veiðunum er enginn grundvöllur fyrir frekari hvalveiðum," segir Einar við Reuters.

Sl. haust voru gefin út leyfi fyrir veiðum á 9 langreyðum og 30 hrefnum í atvinnuskyni á yfirstandandi fiskveiðiári. Sjö langreyðar veiddust í september og október en veiðunum hefur ekki verið haldið áfram á þessu ári. Þá veiddust aðeins 7 hrefnur af atvinnuveiðakvótanum.

„Ég mun ekki gefa út nýjan kvóta fyrr en markaðsaðstæður fyrir hvalkjöt batna og búið er að tryggja leyfi til að flytja út hvalkjöt til Japans," segir Einar við Reuters. „Það er engin ástæða til að halda áfram atvinnuhvalveiðum ef engin eftirspurn er eftir kjötinu."

Reuters hefur eftir Stefáni Ásmundssyni, aðalfulltrúa Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu, að samningaviðræður standi yfir við Japana um markaðsaðgang fyrir hvalafurðir.

„Við erum að ræða við japönsk stjórnvöld en niðurstaða hefur ekki fengist um hvernig best er að tryggja gæði og heilbrigði afurðanna. Vonandi fæst botn í þetta bráðlega því óvissan gerir engum gott."

Gunnar Bergmann Jónsson, forsvarsmaður íslenskra hrefnuveiðimanna, gagnrýnir afstöðu íslenskra stjórnvalda og segir, að ráðherra eigi ekki að leggja mat á hvort markaður sé fyrir hvalaafurðir eða ekki. „Hvernig eigum við að finna markað fyrir kjötið ef við höfum enga vöru til að selja?"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert