Fyrsta skóflustungan að nýbyggingu HR tekin í dag

Núverandi húsnæði Háskólans í Reykjavík.
Núverandi húsnæði Háskólans í Reykjavík. mbl.is

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri mun taka fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við rætur Öskjuhlíðar upp af Nauthólsvík kl. 10:30 í dag. Húsið verður um 35 þúsund fermetrar að stærð og því ein stærsta bygging höfuðborgarinnar.

Unnið hefur verið að hönnun byggingarinnar frá því í fyrrahaust af Arkís, Landmótun og Henning Larsen Architects (DK), auk verkfræðihönnuða frá Cowi (DK) og VGK-Hönnun, segir í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir að fyrsta hluta byggingarframkvæmda verði lokið í upphafi skólaárs í ágúst 2009 og að þá verði tilbúin til notkunar aðstaða í um 20.000 fermetrum fyrir tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðideild og viðskiptadeild.

Stefnt er að því að öll starfsemi Háskólans í Reykjavík verði svo komin niður að Öskjuhlíðarrótum haustið 2010.

Eftir að borgarstjóri hefur tekið fyrstu skóflustunguna mun Bjarni Ármannsson, formaður háskólaráðs, flytja stutt ávarp sem og rektor HR, dr. Svafa Grönfeldt. Hún ræsir síðan hóp nemenda og starfsmanna sem fara um hið nýja land HR til að helga sér landið að fornum sið, en í Hauksbók segir frá því að á landnámstímum hafi kona mátt helga sér land með því að leiða tvævetra kvígu vorlangan dag sólsetra í millum um það land sem numið var, en karlmaður fór um landið með eldi sólsetra á milli. Í HR ríkir hins vegar fullkomið jafnrétti og því fara allir „landnemar“ um landið með eldi.

Að lokinni athöfn ætlar Sjósundfélag HR svo að standa fyrir sundspretti í Nauthólsvík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert